28 Feb 2023

Mikil aukning á eftirspurn eftir langtímalánum Norræna fjárfestingarbankans árið 2022

Eftirspurn eftir langtímalánum Norræna fjárfestingabankans (NIB) jókst mikið árið 2022, vegna minna framboðs á lánum til lengri tíma hjá viðskiptabönkum og skuldabréfamörkuðum, hraðari umhverfisvænni þróun og breiðara úrvals bankans á sjálfbærum fjármögnunarvalkostum. Heildarupphæð útborgana fyrir árið var 3.705 milljónir evra, hækkun frá 2.440 milljónum evra frá árinu 2021, og upphæð samþykktra lána var 4.114 milljónir evra, sem er hækkun frá 1.852 milljónum evra miðað við árið á undan.

„Umboð okkar til að fjármagna verkefni sem auka framleiðni og eru til hagsbóta fyrir umhverfið er mikilvægara nú en nokkru sinni fyrr. Það sama má segja um hlutverk okkar í að efla stöðugleika. Við höldum áfram að styðja viðskiptavini okkar á tíma orkukreppu og efnahagslegrar óvissu, vegna stríðsins á milli Rússlands og Úkraínu, sem hefur gert það að verkum að aðrir fjármögnunaraðilar eru óviljugri til að veita lán,“ segir André Küüsvek, forseti og framkvæmdastjóri NIB.

Útgreidd lán til orkuframleiðslu námu 10% af heildarútgreiðslum, á sama tíma og útgreiðslur vegna flutnings og dreifingar orku námu 16%. Orkufjárfestingar eru aðallega keyrðar áfram af áætlun um kolefnisminnkun og loftslagsmarkmiðum, þar sem öryggi birgða hefur bæst við sem annar mikilvægur þáttur árið 2022.

NIB hóf einnig að beita endurnýjaðri stefnu sem stjórn bankans samþykkti í árslok 2021.  Í henni felast fleiri útlán sem tengjast sjálfbærni og aukin umsvif á mörkuðum sem nutu áður minni þjónustu. NIB hóf einnig þátttöku í InvestEU áætluninni.

Af þeim verkefnum sem bankinn fjármagnaði árið 2022 hlutu 99,2% einkunnina „gott“ eða „framúrskarandi“ með tilliti til áhrifa þeirra á umhverfi og/eða framleiðni en matið styðst við eigið einkunnakerfi. Þetta var langt yfir settu markmiði, sem var 90%. Stjórn NIB samþykkti að hækka þetta markmið í 95% frá og með árinu 2023.

„Við höldum vel stefnu okkar og setjum markið hærra fyrir enn fleiri markviss fjármögnunarverkefni í framtíðinni. Norræni fjárfestingarbankinn heldur áfram að gegna mikilvægu hlutverki sem alþjóðlega fjármálastofnunin fyrir Norðurlönd og Eystrasaltslöndin og styður þau til að vera í fremstu röð hvað varðar tækniþróun og umhverfismál,“ segir Küüsvek.

Hreinn hagnaður fyrir árið var 139,3 milljónir evra samanborið við 159,2 milljónir evra árið 2021. „Vaxtatekjur NIB hækkuðu árið 2022 en einnig hækkaði tap á óinnleystu gangvirði skuldabréfa af völdum hækkaðs áhættuálags á markaði og þá var hreint tap af lánum nokkru meira en árið 2021. Útlánasafn okkar er áfram sterkt og það sama má segja um höfuðstól okkar og reiðufjárstöðu“, segir Kim Skov Jensen, fjármálastjóri NIB.

Stjórn NIB leggur til að greiða 25 milljón evrur í arð til norrænna og baltneskra aðildarríkja bankans.

Hægt er að lesa meira í ársskýrslu okkar fyrir 2022, sem inniheldur skýrslur um starfsemi okkar, áhrif, sjálfbærni og fjármál.

Helstu tölur og hlutföll
Tölurnar eru í milljónum evra nema annað sé tekið fram
 20222021
Hreinar vaxtatekjur 219201 
Hagnaður fyrir hreint tap af lánum 136133 
Hreinn hagnaður 139159 
Útborguð lán 3,7052,440 
Undirrituð lán 4,1141,852 
Útistandandi lán 22,19522,313 
Nýjar skuldir 9,6307,028 
Vottaðar skuldir 31,59531,526 
Heildareignir 39,28037,553 
Eigið fé/heildareignir (%) 10,410,6 

Norræni fjárfestingarbankinn er alþjóðleg fjármálastofnun í eigu aðildarlandanna átta: Danmerkur, Eistlands, Finnlands, Íslands, Lettlands, Litháen, Noregs og Svíþjóðar. Bankinn lánar til opinberra verkefna og einkaverkefna jafnt innan sem utan aðildarríkjanna. Norræni fjárfestingarbankinn fær hæstu mögulega lánshæfiseinkunn, AAA/aaa, hjá leiðandi matsfyrirtækjum, Standard & Poor’s og Moody’s.

Frekari upplýsingar veitir:

André Küüsvek, forseti og framkvæmdastjóri, í síma +358 10 618 001, info@nib.int

Kim Skov Jensen, fjármálastjóri, í síma +358 10 618 0209, kim.jensen@nib.int

Jukka Ahonen, samskiptastjóri, í síma +358 10 618 0295, jukka.ahonen@nib.int