23 Nov 2017

Norræni fjárfestingarbankinn veitir lán til flutningslína á Íslandi

Krafla. Foto: Tiina Salonen

Norræni fjárfestingarbankinn hefur undirritað tíu ára lánasamning við Landsnet hf., sem rekur flutningskerfið á Íslandi, vegna stækkunar og styrkingar á raforkukerfi landsins.

Lánið er upp á 50 milljónir Bandaríkjadala (42,51 milljón evra) og er veitt í því skyni að fjármagna raforkulínur ofanjarðar sem tengja jarðvarmavirkjunina að Þeistareykjum við svæðiskerfið og meginflutningskerfið, sem og við iðnaðarsvæðið á Bakka við Húsavík.

Tenging Þeistareykja við iðnaðarsvæðið á Bakka styður við þróun orkufreks iðnaðar á Íslandi. Slíkt hefði mikil og langvarandi áhrif á atvinnustarfsemi á svæðinu, einkum vegna 120 nýrra starfa sem myndu verða til á Húsavíkursvæðinu, sem telur um 2200 íbúa. Með tengingum við svæðiskerfið og meginkerfið fengju aðrir íslenskir notendur einnig aðgang að meiri endurnýjanlegri orku frá Þeistareykjum.

Lánið verður einnig notað til að fjármagna fjárfestingar í styrkingu kerfisins í Skagafirði og á Snæfellsnesi. Verkefnið mun auka áreiðanleika kerfisins á svæðum þar sem reglulega hafa orðið truflanir á raforkuafhendingu.

Landsnet hf. er rekstraraðili flutningskerfisins á Íslandi og á og rekur 3300 km af flutningslínum, 240 km af jarðstrengjum, ásamt 75 tengivirkja á sviðinu 66-220 kV. Eignarhald er í gegnum orkufyrirtæki í eigu ríkis og sveitarfélaga og liggur hjá íslenska ríkinu (93%) og Reykjavíkurborg (7%).

Norræni fjárfestingarbankinn er alþjóðleg fjármálastofnun í eigu aðildarlandanna átta: Danmerkur, Eistlands, Finnlands, Íslands, Lettlands, Litháen, Noregs og Svíþjóðar. Bankinn lánar til opinberra verkefna og einkaverkefna jafnt innan sem utan aðildarríkjanna. Norræni fjárfestingarbankinn fær hæstu mögulega lánshæfiseinkunn, AAA/aaa, hjá leiðandi matsfyrirtækjum, Standard & Poor’s og Moody’s.

Frekari upplýsingar má fá hjá
Sami Loukkola, útlánastjóra, í síma +358 50 311 3698,

Arild Moen, upplýsingastjóra, í síma +358 10 618 0496,