29 Jun 2016

Norræni fjárfestingarbankinn fjármagnar jarðvarmavirkjun á Íslandi

Foto: Landsvirkjun.

NIB hefur veitt Landsvirkjun 50 milljóna bandaríkjadala langtímalán til að reisa jarðvarmavirkjun á norðausturlandi.

Láninu, sem er til 16 ára, er ætlað að fjármagna fyrsta áfanga Þeistareykjavirkjunar í grennd við Húsavík. Í fyrsta áfanganum verða tvær 45 MW vélasamstæður settar upp. Aðstæður til nýtingar jarðhita á svæðinu eru mjög hagstæðar og er áætlað að hægt sé að framleiða allt að 200 MW af raforku.

Þegar fram í sækir mun Þeistareykjavirkjun auka framleiðslu á raforku á landsvísu um 4% og mun hún fyrst og fremst anna orkuþörf kísilmálmverksmiðjunnar sem verið er að reisa við Húsavík. Þriðjungur raforkunnar er ætlaður Húsavíkur- og Akureyrarbæ og öðrum iðnaði á svæðinu.

„Verkefnið stuðlar að sjálfbærari kísilmálmframleiðslu fyrir heimsmarkað. Þetta er afar mikilvægur útflutningur fyrir Íslendinga og þar gegnir aðgangur að endurnýjanlegri orku lykilhlutverki“ segir Henrik Normann, forstjóri Norræna fjárfestingarbankans.

Jarðvarmavirkjunin er hluti af stórri framkvæmdaráætlun á svæðinu, sem felur m.a. í sér nýju kísilmálmverksmiðjuna, háspennulínu og vegalagningu. Áætlað er að virkjunin verði tekin í notkun haustið 2017.

Landsvirkjun er í eigu íslenska ríkisins og er stærsti raforkuframleiðandi á Íslandi. Fyrirtækið nýtir endurnýjanlega orkugjafa til þess að framleiða um 70% af allri raforku sem notuð er á landinu.

Norræni fjárfestingarbankinn er alþjóðleg fjármálastofnun í eigu aðildarlandanna átta: Danmerkur, Eistlands, Finnlands, Íslands, Lettlands, Litháen, Noregs og Svíþjóðar. Bankinn lánar til opinberra verkefna og einkaverkefna jafnt innan sem utan aðildarríkjanna. Norræni fjárfestingarbankinn fær hæstu mögulegu lánshæfiseinkunn, AAA/Aaa, hjá leiðandi matsfyrirtækjunum Standard & Poor’s og Moody’s.

Frekari upplýsingar veita
Sami Loukkola, útlánastjóri á lánasviði, í síma +358 10 618 0698,

Lisa-Maria Altenberger, samskiptasviði, í síma +358 10 618 0234,

Related resources

29 Jun 2016

Landsvirkjun

EUR 45.1 million

Article

2.5.2018

Landsvirkjun: Iceland’s energy answer comes naturally